1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Regions and Cities at a Glance 2018

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/reg_cit_glance-2018-en

OECD byggðir og borgir í hnotskurn 2018

Útdráttur á íslensku

Efnahagsbatanum, sem átt hefur sér stað eftir alheimsfjármálakreppuna, hafa fylgt vísbendingar um að dregið hafi úr efnahagslegu misræmi innan landa. Milli áranna 2000 og 2007 hafði misgengi milli byggða innan landa aukist. Á sama tíma voru lágtekjulönd að vinna upp efnahagslegt forskot landa þar sem tekjur voru almennt hærri. Úr því urðu til aðstæður – við upphaf fjármálakreppunnar – þar sem misræmi innan landa var orðið meira en misræmið milli landa. Þessi þróun hefur verið að snúast við síðan 2011 og nú er svo komið að farið er að draga verulega úr misræminu innan landa, einkum á síðustu árum. Þessa viðsnúnings varð fyrst vart í löndum utan Evrópu en það er ekki fyrr en nýverið að sama þróun hefur komið fram í Evrópu, þar sem efnahaghagsleg viðreisn hefur tafist. Þrátt fyrir þessa kærkomnu þróun er misræmið milli byggðarlaga enn mikið að ýmsu leyti.

Á þessum mismunandi stigum þróunarinnar hafa höfuðborgarsvæði og þéttbýlissvæði – til síðarnefndu svæðanna teljast byggðakjarnar þar sem íbúar eru a.m.k. 500.000 – áfram verið eftirsóttir staðir fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Á stórborgarsvæðum hefur fólksfjöldi aukist um 0,75% á ári frá því um árið 2000 og þau skila nú 60% að jafnaði af landsframleiðslu. Þar er hlutfall innflytjenda einnig hærra og nýsköpun og stofnun fyrirtækja er meiri.

Þótt nýverið hafi orðið vart við að munurinn milli svæða hafi minnkað eiga margar byggðir sem þegar voru að dragast aftur úr árið 2000 enn í vandræðum með að komast upp að hlið þeirra svæða í sömu löndum þar sem hagsæld er meiri. Til að mynda er framleiðnin í þeirri byggð þar sem framleiðni er mest í einhverju landi OECD að meðaltali tvöföld á við framleiði þeirrar byggðar þar sem framleiðnin er minnst og munurinn á fjölda atvinnutækifæra er einnig áfram umtalsverður. Annar vandi er að nú þegar sveitarstjórnir fjárfesta minna en áður er hætt við að viðleitnin til þess að halda uppi góðum innviðum og almenningsþjónustu verði enn erfiðari í mörgum byggðalögum.

Í þessari skýrslu er sett fram alhliða mat á því hvernig byggðum og borgum gengur í viðleitni sinni til þess að styrkja efnahag sinn, búa íbúum betri lífsgæði og stuðla að samfélagi sem tekur tillit til þarfa og væntinga allra. Þar er sett fram samanburðarmynd sem sýnir þróun landfræðilegrar framleiðni, hagvöxt, frumkvöðlastarf og velsæld í byggðum og borgum innan OECD og tilteknum völdum löndum utan OECD. Sérstök áhersla er lögð á ójöfnuð milli svæða, svo sem mun á tekjum og atvinnutækifærum, aðlögun innflytjenda á svæðum innan OECD, svo og á kynjabilið á nokkrum sviðum velsældar á svæðisvísu.

Helstu niðurstöður

Loks er byrjað að draga úr efnahagslegu misgengi milli svæða innan landa OECD en misræmið er enn mikið

Hið efnahagslega misræmi sem verið hefur viðloðandi milli byggða innan einstakra landa er loks í rénun. Misræmið er þó enn tiltölulega mikið og þróunin er mismunandi milli landa. Frá því á árinu 2000 hefur hið efnahagslega bil milli svæða annað hvort orðið stöðugt eða minnkað í um helmingi landa innan OECD, en í hinum helmingnum hefur bilið aukist enn. Til að mynda dró verulega úr efnahagslegu misræmi milli svæða i Chile, Mexíkó og Nýja‑Sjálandi. Í þeim löndum sem verst urðu úti í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu (t.d. löndum í suður Evrópu eða Írlandi) hefur bilið aftur á móti aukist, þótt nokkur merki séu um viðsnúning allra síðustu ár.

Með vinnu sem nýlega hefur verið unnin innan OECD hafa verið greindir þeir drifkraftar sem liggja að baki ólíkri þróun framleiðni milli byggða innan landa. Að meðaltali voru byggðarlög með meiri sérhæfingu í útflutningsgreinum – og þar með í meiri alþjóðlegri samkeppni – eða í nálægð við þéttbýli fljótari að vinna upp forskot þeirra byggðarlaga í landi þeirra þar sem hagsæld var mest. Strjálbýl svæði í nálægð við borgir hafa t.d. minnkað framleiðnimuninn við þéttbýlissvæði um þrjú prósentustig síðan 2010.

Að auki hafa höfuðborgarsvæði enn aukið á efnahagslegt mikilvægi sitt á undanförnum tveimur áratugum. Þar sem höfuðborgir eru miðstöðvar frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar er atvinnusköpun af hálfu nýrra fyrirtækja 60% meiri á höfuðborgarsvæðum.

Margir þættir lífsgæða hafa batnað nánast alls staðar en tekju‑ og atvinnumöguleikar eru enn mestir í stórborgum og tilteknum byggðalögum

Í langflestum byggðalögum hafa nokkrir mælikvarðar á lífsgæði batnað síðan 2000, sem hefur leitt til þess að bilið milli byggðarlaga hefur minnkað. Þetta á ekki síst við um menntastig, lífslíkur og öryggi. Hins vegar hafa mikilvægir þættir svo sem atvinnu‑ og tekjustig ekki batnað alls staðar. Að finna atvinnu er enn mun erfiðara á nokkrum svæðum. Ungt fólk verður sérstaklega fyrir barðinu á þessu en atvinnuleysi meðal ungs fólks er enn meira en 50% á sumum svæðum, svo sem í Epirus á Grikklandi og Calabríu á Ítalíu.

Erfiðleikar á vinnumarkaði hafa bein áhrif á tekjumöguleika. Hjá fólki sem býr á stórborgarsvæðum eru tekjur 21% hærri en hjá fólki sem búsett er annars staðar, þótt verðlag, einkum húsnæðisverð, hneigist einnig til þess að vera hærra á stærri þéttbýlissvæðum. Til að mynda má nefna að meðan heimili verja að meðaltali 20% af tekjum sínum í húsnæði, geta útgjöld til húsnæðismála numið allt að 40% af heildartekjum, t.d. í Osló í Noregi

Ef markmið um hagvöxt sem gagnast öllum eiga að nást þarf að takast á við ójöfnuð bæði innan og milli byggðarlaga

Ójafnræði er ekki aðeins að finna milli byggðarlaga og borga, heldur einnig innan þeirra. Hátt ójafnaðarstig getur útilokað fólk frá atvinnutækifærum og þannig frá þeim ávinningi sem hlýst af hagvexti, sem getur haft þá afleiðingu að grafa undan félagslegri og efnahagslegri sjálfbærni til langs tíma. Á stórborgarsvæðum getur ójöfnuður verið sérlega áberandi á borgarhverfastiginu, þar sem best stæðu heimilin er að finna í meiri einangrun í afmörkuðum hverfum en aðrir tekjuhópar. Ef hagvöxtur á að koma öllum til góðs er grundvallaratriði að allir hafi aðgang að tækifærum, atvinnu og þjónustu. Aðgengi að þjónustu getur til að mynda verið afar breytilegt, jafnvel innan sama borgarsvæðis. Um 87% íbúa í miðlægum og þéttbýlum hverfum hafa aðgengi að sjúkrahúsi innan þrjátíu mínútna akstursvegalengdar, samanborið við aðeins 57% íbúa á þéttbýlissvæðum utan miðborgarkjarnans.

Að stuðla að þátttöku allra í hagvaxtarþróuninni er mikilvægt til þess að framfarirnar skili sér alls staðar. Þótt kynjabilið í atvinnustigi hafi minnkað örlítið síðan á árinu 2000 er atvinnustig enn 20 prósentustigum lægra meðal kvenna á tilteknum svæðum í Mexíkó, Tyrklandi, Chile, Ítalíu og Grikklandi. Meðal farandfólks á svæðum innan OECD er atvinnustig meðal kvenna 15 prósentustigum lægra en meðal karla. Í ljósi þess að stór hluti ójafnaðar á rætur í héraði, og í ljósi þess einnig að stór hluti útgjalda sveitarfélaga rennur til menntamála, heilbrigðismála og annarrar opinberrar þjónustu, má fullyrða að stjórnvöld á sveitarstjórnarstigi hafa miklu hlutverki að gegna ef stuðla á að því að hagvöxtur komi öllum til góða.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2018), OECD Regions and Cities at a Glance 2018, OECD Publishing.
doi: 10.1787/reg_cit_glance-2018-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error