1887

OECD Multilingual Summaries

Environment at a Glance 2015

OECD Indicators

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264235199-en

Umhverfið í hnotskurn 2015

Hagvísar OECD

Útdráttur á íslensku

Frá árinu 2000 hafa orðið merkjanlegar framfarir varðandi losun hefðbundinna loftmengunarefna, eldsneytisnýtingu í samgöngum, orkukræfni, endurnýjanlega orkugjafa, vatnsnotkun, skólphreinsun og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Þetta skýrist að hluta af efnahagssamdrættinum í kjölfar kreppunnar, en einnig af því að lönd innan OECD hafa í auknum mæli tekið upp ýmiss konar regluverk til þess að taka á umhverfisálagi, þ.m.t. skatta sem stýra kauphegðun neytenda og fella umhverfiskostnað inn í útgjöld fyrirtækja og heimila. Einnig er í auknum mæli verið að fella umhverfisþætti inn í þróunarsamstarf og rannsóknir og þróun.

Mikið af þessari þróun á sér þó stað á jaðrinum og stefnumótun skortir oft samhengi, sem grefur undan viðleitninni til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Ýmis lönd styðja áfram við notkun og framleiðslu jarðefnaeldsneytis á margvíslegan hátt og efnahagsstarfsemi byggir enn á losun kolefna og sóun á orku og öðrum náttúruauðlindum. Meðal ögrandi viðfangsefna sem framundan eru má nefna veðurfarsbreytingar og áhrif umhverfishnignunar á heilsu og framtíðarvöxt og þróun. Þörf er á djarfri stefnumótun og áreiðanlegum upplýsingum til þess að taka á þessum viðfangsefnum, sérstaklega eftir því sem hagvöxtur kemst aftur á skrið.

Helstu niðurstöður

Loftmengun er áfram áhyggjuefni vegna veðurfars og lýðheilsu

  • Losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast á heimsvísu en hefur þó dregist saman í nær öllum löndum OECD milli áranna 2000 og 2012, sem bendir til rofinna tengsla milli losunaraukningar og efnahagsvaxtar. Þetta skýrist að hluta af efnahagssamdrættinum í kjölfar kreppunnar en einnig af styrkari stefnumótun um veðurfar og breytingum á orkuneyslumynstri.
  • Engu að síður losa lönd innan OECD mun meiri koltvísýring (CO2) á mann en flest önnur svæði heims, eða 9,6 tonn á mann, samanborið við 3,4 tonn á mann annars staðar í heiminum. Miðað við núgildandi stefnumið er áætlað að koltvísýringslosun verði um þrisvar sinnum meiri en þörf væri á til þess að takmarka langtímahækkun hitastigs á jörðinni við 2°C.
  • Áfram dregur úr losun brennisteinsoxíðs (SOx) og köfnunarefnisoxíðs (NOx) vegna orkusparnaðar, staðgöngueldsneytis, mengunareftirlits og tækniframfara.
  • Í helmingi landa OECD verða meira en 90% manna fyrir áhrifum af svifögnum (PM2,5) uppi við mörkin þar sem neikvæð áhrif á heilsufar byrja að mælast. Þessar agnir smjúga djúpt ofan í lungun og í þeim geta leynst þungmálmar og lífræn eiturefni.

Eftirspurn eftir vatni eykst en vatnsnotkun helst stöðug

  • Ferskvatnstaka var áfram stöðug vegna betri nýtingar og betri verðlagningarstefnu, en einnig vegna aukinnar notkunar á öðrum vatnslindum, svo sem endurnýttu og afsöltuðu vatni. Þótt mörg lönd sýni hlutfallslega aftengingu ferskvatnstöku frá vaxandi landsframleiðslu eru vatnslindir í þriðjungi landa undir meðalálagi eða miklu álagi og mörg lönd þurfa að glíma við staðbundinn eða árstíðabundinn vatnsskort. Veðurfarsbreyting kann að auka á slíkan skort, þar með talið í löndum sem búa yfir áreiðanlegum vatnsbólum.
  • Nærri 80% fólks í löndum OECD njóta góðs af skólphreinsun. Mörg lönd standa nú frammi fyrir auknum kostnaði af endurnýjun úr sér genginna vatnsveitna og skólplagna. Sum þeirra þurfa að finna leiðir til þess að þjóna litlum eða einangruðum byggðum og tryggja viðhlítandi eftirlit með litlum, sjálfstæðum hreinsunarstöðvum.

Urðun er enn helsta leiðin til förgunar sorps

  • Á fyrsta áratug aldarinnar hægði á framleiðslu sorps. Einstaklingur sem býr á OECD svæðinu skilar að meðaltali 520 kg af sorpi á ári; það er 30 kg minna en árið 2000, en samt 20 kg meira en árið 1990. Þótt sorpi sé í vaxandi mæli veitt aftur inn í atvinnulífið með endurnýtingu er sorpurðun enn helsta förgunarleiðin í helmingi landa OECD.

Ógnin við líffræðilega fjölbreytni eykst

  • Margar dýra‑ og plöntutegundir í löndum OECD eru í hættu, einkum í mjög þéttbýlum löndum með víðtæk grunnvirki. Í Norður‑Ameríku og Evrópu hefur fjöldi fugla sem lifa á ekrum og í skógum dregist saman um næstum 30% á 40 árum. Fjölda skóga stafar ógn af skemmdum, sundrun og breytingum til annarrar nýtingar. Eftirspurn eftir timbri til þess að ná markmiðum um endurnýjanlega orku gegnir vaxandi hlutverki í hagnýtingu skóga.

Framfarir í umhverfismálum eru mismunandi milli atvinnugreina

  • Orkukræfni hélt áfram að batna frá 2000 til 2014. Endurnýjanleg orka er notuð í auknum mæli, einkum í Evrópu. Endurnýjanleg orka stendur undir 21% rafmagnsframleiðslu (15,6% árið 2000) og næstum 9% af allri framleiðslu (6% árið 2000). En jarðefnaeldsneyti er enn meginorkugjafinn (80%).
  • Í flestum ríkjum OECD var vöxtur umferðar á vegum umfram efnahagsvöxt. Fjölgun farartækja og aukin umferð vinnur gegn viðleitni landa til þess að stuðla að hreinni farartækjum, sem leiðir til aukinnar eldsneytiseyðslu og mengunar.
  • Búnaðarland minnkaði í nær öllum löndum og sama gildir um losun gróðurhúsalofttegunda og notkun fosfatáburðar. Hins vegar er hlutfall lands sem notað er undir lífrænan búskap enn lágt, eða rétt yfir 2%, þótt það hlutfall dylji hinn verulega mun sem er milli landa. Hlutfallið er að jafnaði hærra í Evrópusambandinu, eða allt að 10% til 17% í sumum löndum.

Stuðningur við rannsóknir, þróun og nýsköpun eykst

  • Opinber útgjöld til rannsókna og þróunar á umhverfissviði jukust um meira en 20% frá árinu 2000, hraðar en heildarútgjöld eftir kreppuna árið 2008. Engu að síður eru heildarútgjöld til rannsóknar‑ og þróunarstarfs innan við 2%. Hlutdeild útgjalda til endurnýjanlegrar orku jókst úr 8% í 24%.
  • Opinber þróunaraðstoð til umhverfismála hélt áfram að vaxa og jókst hlutdeild hennar í heildaraðstoðinni úr 9,6% árið 2002 í 12,6%; aðstoð vegna endurnýjanlegrar orku var meiri en aðstoð vegna óendurnýjanlegrar orku.

Innleiðing markaðstækja til þess að verðleggja mengun er áfram erfið

  • Notkun umhverfistengdra skatta er að aukast en er enn takmörkuð í samanburði við atvinnutengda skatta. Heildartekjur af slíkum sköttum var um 1,6% af landsframleiðslu árið 2013. Þar ber hæst skatta á orku (69%) og skatta á bifreiðar og samgöngur (28%). Breytileiki orkuskatta, lágt skatthlutfall á eldsneyti sem hafa mikil umhverfisáhrif og undanþágur vegna eldsneytis sem er notað í sumum atvinnugreinum standa í vegi fyrir breytingu yfir í lágkolefnahagkerfi. Í mörgum löndum eru enn hærri skattar á bensín en dísilolíu og hlutdeild skatta í verði til endanlegra notenda er almennt hærri fyrir heimili en atvinnuvegina.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2015), Environment at a Glance 2015: OECD Indicators, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264235199-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error