1887

OECD Multilingual Summaries

Global Outlook on Financing for Sustainable Development 2019

Time to Face the Challenge

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264307995-en

Almennar horfur í fjármögnun sjálfbærrar þróunar 2019

Tími kominn til að taka áskoruninni

Útdráttur á íslensku

Markmiðin um sjálfbæra þróun og Aðgerðaáætlunin til 2030 (e. 2030 Agenda) fólu í sér endurskilgreiningu á metnaði heimsbyggðarinnar í þessum málaflokki: ábyrgðin á að skapa betri veröld er sameiginleg. Eftir því sem tíminn líður verða aðgerðirnar æ brýnni – vanda á við örbirgð og loftslagsbreytingar er einungis hægt að leysa með sameiginlegu átaki á heimsvísu.

Með niðurstöðu þriðju alþjóðaráðstefnunnar í Addis Ababa 2015 um fjármögnun þróunarsamvinnu (e. Addis Ababa Action Agenda – AAAA) var lagður grunnur að fjármögnun þessa sameiginlega metnaðarmáls. Þar er ákalli beint til fjölmargra þeirra sem að málum munu þurfa að koma – stjórnvalda, fyrirtækja, stofnana og einstaklinga – um að veita auknu fjármagni og með samræmdari hætti í því skyni að ná fram hagvexti sem eykur velsæld fólks jafnframt því sem staðinn er vörður um umhverfið, einkum í þróunarlöndum.

En nú þegar þrjú ár eru liðin frá því að aðgerðaráætlunin var samþykkt í Addis Ababa árið 2015 hefur hin fyrirheitna aukning fjármagns til þessara landa í því skyni að ná fram markmiðunum um sjálfbæra þróun ekki átt sér stað. Tekjur stjórnvalda – sem eru meginstoðin í fjármögnun þróunarstarfs og nema samtals 4.3 trilljónum bandaríkjadala – eru enn að meðaltali undir 15% af vergri landsframleiðslu í lágtekjulöndum, en það eru mörkin sem talið er nauðsynlegt að slíkar tekjur nái til þess að ríkisrekstur geti verið með eðlilegum hætti.

Það veldur og áhyggjum að dregið hefur úr öðru fjárstreymi til þróunarlanda. Einkum og sér í lagi hefur dregið verulega úr fjárfestingum einkaaðila, en bein fjárfesting einkaaðila hefur dregist saman um 30% á tímabilinu 2016‑2017 og farið niður í 750 milljarða bandaríkjadala, ásamt því að verkefnafjármögnun dróst saman um 30% á fyrstu fjórum mánuðum 2018, sem er ógnvænleg þróun. Annað flæði fjármagns hefur haldist stöðugt en er samt lítið í samanburðinum: fé sem farandfólk sendir til heimalanda sinna náði 466 milljörðum bandaríkjadala á árinu 2017, sem er met, opinber þróunaraðstoð helst stöðug þrátt fyrir þrengingar í ríkisfjármálum gjafalandanna og nam 146,6 milljörðum bandaríkjadala á árinu 2017, og framlag góðgerðarstarfsemi nam að meðaltali 7,9 milljörðum bandaríkjadala á árunum 2013 til 2015. Að því er varðar fjármögnun nýsköpunar er þar enn um að ræða óverulegan hluta af opinberum framlögum þótt slík framlög fari vaxandi.

Samdráttur í fjárframlögum til sjálfbærrar þróunar veldur ekki einungis áhættu fyrir þróunarlönd; hann er einnig alþjóðleg ógn, því ef ekki tekst að ná fram sjálfbærri og friðsamlegri velsæld um heim allan mun það hafa afleiðingar fyrir alla.

Þess vegna er í þessari útgáfu skýrslunnar um horfur í fjármögnun sjálfbærrar þróunar sett fram ákall eftir brýnum og djörfum aðgerðum til þess að hrinda Addis Ababa áætluninni í framkvæmd og efna fyrirheitin sem gefin voru með þróunaráætluninni til 2030, bæði heima fyrir og erlendis. Ekki mun nægja að veita meira fjármagni til þróunarlanda; það þarf einnig að bæta gæði og sjálfbæran varanleika allrar fjármögnunar.

Í skýrslunni er bent á þrjú svið þar sem unnt er að gera úrbætur: í fyrsta lagi eru mælingar: við þurfum betri hagvísa og tæki til þess að meta umfang fjárstreymisins og einnig hversu vel streymið samrýmist markmiðunum um sjálfbæra þróun. Útfæra verður mælingarnar þannig að þær nái ekki einungis yfir aðstoð, heldur yfir fjárstreymi frá öllum þeim sem að þessum málum koma og fylgjast með því hvaða tilteknu markmiðum um sjálfbærni og þróun fjárstreymið þjónar. Til að mynda er ekki unnt að meta fjárhæð sem fer til mengandi starfsemi með sama hætti og fjárhæð sem fjárfest er í hreinni orku. Þróa verður menningu um mat og árangur í því skyni að skilja raunveruleg áhrif fjárveitinga en einnig fórnarkostnað og samlegðaráhrif. Í skýrslunni er þannig kallað eftir nýju framtaki um gegnsæi sem fyrsta skref til þess að bregðast við þessum gagnaskorti.

Í öðru lagi er þörf á nýrri stefnumörkun sem miðar að því að beina trilljónunum í nýja farvegi, þ.e. að hvetja til þess að stærri hlutdeild í heildarfjármagninu renni til sjálfbærrar þróunar. Í því felst meðal annars að styðja við getu þróunarlanda til þess ná sem mestu út úr því fjármagni sem til þeirra rennur: hvetja til þess að þeir sem fjármagninu veita setji sér strangar kröfur, koma í veg fyrir skaðlega starfshætti, svo sem skattaundanskot, og hvetja til betur samræmdra stefnumiða um sjálfbæra þróun í upprunalöndum fjárveitinganna – til að mynda með skattkerfum og fjárfestingaráætlunum og aðgerðum til þess að minnka kostnað farandfólks af heimsendingu peninga.

Í þriðja lagi þurfum við að bæta samræmingu starfsemi hinna ýmsu þátttakenda til þess að koma á betri tengingum milli framboðs og eftirspurnar eftir fjármagni til sjálfbærrar þróunar. Einkum og sér í lagi þarf að koma á betri tengslum milli þróunaráætlana einstakra landa og þess fjármagns sem til ráðstöfunar er. Ýmis greiningartæki og leiðbeiningar eru þegar fyrir hendi til þess að auðvelda mótun slíkra áætlana og tengja þær við fjármunina sem tiltækir eru, en samræming innan landa er enn lítil. Í skýrslunni eru löndin sem leggja til fjármuni hvött til þess að samræma betur stuðning sinn við löndin sem stuðningsins njóta eftir því sem gjafalöndin þróa þær landsbundnu fjármögnunaráætlanir sem kallað er eftir í Addis Ababa áætluninni.

Með hinni metnaðarfullu áætlun um breytingar sem lýst er í þessari útgáfu skýrslunnar er ætlunin að styðja við viðleitnina undir forystu Sameinuðu þjóðanna til þess að framkvæma aðgerðaráætlunina til 2030 og áætlunina sem sem samþykkt var í Addis Ababa. Í skýrslunni er því beint til veitenda þróunaraðstoðar innan OECD að beita öllum tiltækum ráðum til þess að styðja við framtíðarsýn samstarfslanda sinna og eigið val þeirra á leiðum til sjálfbærrar þróunar. Þar er mælt með raunhæfum aðgerðum, bent á svið þar sem þörf er á skoðanaskiptum um stefnumörkun og athygli vakin á gagnagloppum sem leitast verður við að fylla í komandi útgáfum skýrslunnar.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2018), Global Outlook on Financing for Sustainable Development 2019: Time to Face the Challenge, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264307995-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error