1887

OECD Multilingual Summaries

Development Co-operation Report 2018

Joining Forces to Leave No One Behind

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/dcr-2018-en

Skýrsla um þróunarsamvinnu 2018

Samhent átak svo enginn sitji eftir

Útdráttur á íslensku

Árið 2015 samþykktu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna aðgerðaáætlun um sjálfbæra þróun til 2030 – alþjóðlega umbreytingaráætlun þar sem hinum efnahagslegu, félagslegu og umhverfistengdu stoðum þróunar er raðað í 17 markmið um sjálfbæra þróun sem fléttast saman með margslungnum hætti. Mikilvægur þáttur í áætluninni til 2030 er skuldbinding um að ná markmiðunum fyrir alla, skilja engan eftir og leitast við að ná fyrst til þeirra sem verst standa. Í skýrslunni um þróunarsamvinnu 2018 er farið ofan í þýðingu þessarar skuldbindingar og sjónum beint sérstaklega að einstöku hlutverki og framlagi þróunarsamvinnu og opinberrar þróunaraðstoðar. Með skýrslunni er brugðist við óskum aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar OECD (OECD Development Assistance Committee – DAC) um nánari skýringar á því hvernig skuli efna þessa skuldbindingu.

Í hinu alþjóðlega samhengi, þar sem ójöfnuður varðandi tekjur og auð innan landa og milli landa fer vaxandi, samhliða tíðari veðurfarstengdum áföllum, er þeim árangri sem náðst hefur í þróunarmálum til þessa stefnt í voða. Sýnilegri og brýnni áhættuþættir, sem ógna árangrinum af þróunarstarfi og umhverfinu, hafa sett aukinn þrýsting á stjórnvöld, alþjóðasamfélagið og samstarfsaðila í þróunarstarfi að bregðast við og laga sig að breytingum. Þessir aðilar standa nú frammi fyrir skýrri þörf á því að endurskoða áætlanir sínar og fjárfestingar í viðleitninni til þess að uppræta fátækt, draga úr ójöfnuði og takast á við þá þætti sem valda þessari ógn við sjálfbæra þróun, sem mun hafa afleiðingar fyrir heimsbyggðina alla.

En um hvað snýst þá skuldbindingin um að skilja engan eftir í raun? Í skýrslunni er viðurkennt að ekkert einhlítt svar sé til við þeirri spurningu en veitt alhliða yfirsýn yfir málið og vísað til þess að sérhvert aðildarríki Sameinuðu þjóðanna beri ábyrgð á framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar til 2030 og viðleitninni til þess að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun. Stuðst er við nýjustu gögn sem fyrir liggja, upplýsingar og greiningar frá fjölda sérfræðinga og stefnumótenda af opinberum vettvangi og úr fræðasamfélaginu og frjálsum félagasamtökum um það hvað það þýði að vera skilin eftir og um áætlanir sem skila árangri í þeim efnum. Þar er einnig litið með nýjum og gagnrýnum hætti á viðbúnað og getu þróunarsamvinnu og opinberrar þróunaraðstoðar til þess að styðja viðleitni þróunarlanda og samfélaga til þess að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun með þeim hætti að allir njóti góðs af.

Ljóst er að skuldbindingin um að skilja engan eftir felur í sér grundvallarbreytingu á allri umfjöllun um sjálfbæra þróun í öllum löndum – þ.e.a.s. að líta beri til þess fólks sem ekki nær að njóta góðs af framförum af ýmsum ástæðum, sem geta verið pólitískar, félagslegar, efnahagslegar, umhverfistengdar, menningarlegar eða kerfislægar, og oft samverkandi, og ná til þess fólks með sanngjarnri og sjálfbærri þróun sem tekur til allra í þróunarlöndum. Í köflum um Benín, Indónesíu, Kenýa, Rómönsku Ameríku og Vestur‑Afríku og umfjöllun um tilviksrannsóknir er sýnt hvernig hægt sé, með því að taka tillit til fleiri afskiptra samfélagshópa, að ná raunverulegum árangri í átt til sanngjarnari sjálfbærrar þróunar ef stuðst er við réttar upplýsingar og rétt gögn þegar gerðar eru áætlanir um efnahags‑ og umhverfismál.

Í fyrsta hluta skýrslunnar eru sett fram gögn sem sýna hvers vegna það skiptir máli að skilja engan eftir, ásamt upplýsingum og greiningum um hvað það þýðir að vera skilinn eftir. Í nokkrum köflum er einblínt á átta brýn viðfangsefni sem takast þarf á við til þess að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun fyrir alla: að binda enda á sára fátækt í þeim löndum þar sem þörfin er mest; að takast á við vandamál viðkvæmra samfélagshópa; hversu aðkallandi sé að grípa til aðgerða í loftslagsmálum; að ná árangri á sviði kynjajafnréttis og efnahagslegrar valdeflingar kvenna; að taka tillit til 1,2 milljarða ungs fólks í heiminum; og að tryggja að fólk með örorku verði ekki framar skilið eftir.

Í öðrum hluta er fjallað um hvað það merki í raun að skilja engan eftir. Í umfjöllun sem skiptist í nokkra kafla er varpað ljósi á mögulegan árangur af því að beita betur samhæfðum stefnumiðum, fjárlögum og áætlunum þvert á atvinnugreinar og upp og niður eftir stjórnstigum til þess að ná til þeirra hópa sem viðkvæmastir eru. Til að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun þarf að reiða sig á gögn og greiningar þar sem allir eru taldir með og hópar eru aðgreindir eftir þáttum á borð við tekjur, kyn, búsetu, aldur og örorku. Í landsbundnum hagskýrslukerfum á enn eftir að þróa leiðir til þess að vinna úr slíkum gögnum. Að tryggja hastætt umhverfi fyrir hið borgaralega samfélag til þess að dýpka grasrót þeirra sem tala máli hinna jaðarsettu er einnig úrslitaatriði. Önnur staðbundin öfl sem taka þarf mið af eru örfyrirtæki og lítil og meðalstór fyrirtæki. Fyrirtæki af þeim toga geta gegnt stærra hlutverki ef þau hafa fullnægjandi aðgang að ódýru fjármagni, en þar getur þróunarsamvinna komið að gagni.

Í þriðja hluta, þar sem byggt er á svörum aðildarríkja að þróunarsamvinnunefnd OECD við könnun um stefnumótun þeirra og aðferðir, er fjallað um leiðir sem hægt er að feta fram á við í stefnumótun, fjármögnun og áætlanagerð um þróunarsamvinnu með það að markmiði að enginn verði skilinn eftir. Síðasti hluti skýrslunnar (fjórði hluti) hefur að geyma greiningu á sniði þróunaraðstoðar allra aðildarríkja DAC og 13 annarra aðstoðarveitenda sem skila skýrslum til OECD með nægilega sundurliðuðum hætti, svo og á fjármögnun tveggja sjálfseignarstofnana til þróunar. Þar er einnig að finna áætlanir um fjárveitingar til þróunar hjá tíu löndum sem ekki skila skýrslum til OECD sem stendur.

Í skýrslunni um þróunarsamvinnu 2018: Samhent átak svo engin sitji eftir, eru færð sterk rök fyrir því einstaka hlutverki sem þróunarsamvinna í stuðningslöndum og alþjóðasamfélaginu hefur að gegna í viðleitninni til þess að framkvæma aðgerðaáætlunina til 2030. Til að efna loforðið um að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun fyrir alla, þar sem enginn er skilinn eftir, og ná fyrst til þeirra sem verst standa, dugar ekki að halda áfram óbreyttri þróunarsamvinnu. Þeir sem aðstoð veita þurfa að ráðast í nýtt, skipulegt, kerfisbundið og samræmt átak til þess að aðlaga orðræðu sína, stjórnarhætti og fjármögnun í því skyni að hámarka bæði eigin árangur sinn og sameiginlegan árangur allra. Í skýrslunni er skorað á aðstoðarveitendur að uppfæra þróunarsamvinnukerfi sín á þrennan máta:

  • Að taka upp nýja orðræðu þar sem skýrður er hinn sameiginlegi ávinningur af því að skilja engan eftir.
  • Að setja með skipulegum hætti í forgrunn markmiðið um sjálfbæra þróun sem tekur til allra með sanngjörnum hætti með því að setja upp áætlanir um þróunarsamvinnu og með því að taka breytingaröfl, nýsköpun og gögn í þjónustu sína.
  • Að innleiða markvissari notkun og veitingu opinberrar þróunaraðstoðar sem lið í breiðari viðleitni til þess að auka flæði fjármagns sem nýtist til þess að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2018), Development Co-operation Report 2018: Joining Forces to Leave No One Behind, OECD Publishing.
doi: 10.1787/dcr-2018-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error