1887

OECD Multilingual Summaries

PISA 2015 Results (Volume V)

Collaborative Problem Solving

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264285521-en

Niðurstöður PISA 2015 (V. bindi)

Þrautalausnir með samvinnu

Útdráttur á íslensku

Vinnustaðir nútímans gera kröfur um fólk sem er fært um að leysa þrautir í samvinnu með öðrum. En samvinna felur í sér áskoranir fyrir liðsmenn. Vinna skiptist hugsanlega ekki jafnt milli manna eða ekki með skilvirkum hætti og liðsmenn eru hugsanlega látnir vinna störf sem þeir eru illa fallnir til eða sem þeim hugnast ekki. Árekstrar geta orðið milli liðsmanna, sem kemur í veg fyrir skapandi lausnir. Þannig kallar samvinna sem slík á ákveðna færni.

Lítil viðleitni hefur verið í þá átt að leggja mat á það hversu vel nemendur vinna hver með öðrum. Með fyrsta mati í sögu sinni á þrautalausnum með samvinnu beinir PISA 2015 athygli að skortinum sem er á gögnum á þessu sviði, sem eru sambærileg á alþjóðamælikvarða og gera löndum og hagkerfum kleift að átta sig á því hvernig nemendur standa í samanburði við nemendur í öðrum menntakerfum. Um 52 lönd og hagkerfi tóku þátt í matinu á þrautalausnum með samvinnu (32 lönd innan OECD og 20 samstarfslönd eða hagkerfi).

Hvað má ráða af gögnunum

Frammistaða nemenda við þrautalausnir með samvinnu

  • Nemendur í Singapúr sýna betri árangur í þrautalausnum með samvinnu en nemendur í öllum öðrum þátttökulöndum og hagkerfum, en í kjölfarið koma japanskir nemendur.
  • Að meðaltali í öllum löndum OECD voru 28% nemenda einungis fær um að leysa einfaldar þrautir með samvinnu, ef þeir gátu þá yfirleitt leyst einhverjar. Í samanburði voru færri en einn af hverjum sex nemendum í Eistlandi, Hong Kong (Kína), Japan, Kóreu, Macao (Kína) og Singapúr sem sýndu lélegan árangur í þrautalausn með samvinnu.
  • Þegar litið er til allra landa OECD eru 8% nemenda í fremstu röð í þrautalausn með samvinnu, sem þýðir að þeir geta viðhaldið vitund um fjölefli (e. group dynamics), tryggt að liðsmenn vinni í samræmi við það hlutverk sem þeir tóku að sér og leyst úr deilum og árekstrum og jafnframt borið kennsl á vænlegar leiðir og fylgst með framvindu í átt til lausnar.
  • Frammistaða í þrautalausnum með samvinnu fellur saman við frammistöðu í grunngreinum PISA (náttúruvísindi, lestur og stærðfræði), en samsvörunin er veikari en sú sem greindust innan þessara síðastnefndu sviða.
  • Nemendur í Ástralíu, Japan, Nýja‑Sjálandi og Bandaríkjunum standa sig mun betur í þrautalausnum með samvinnu en gera mætti ráð fyrir miðað við frammistöðu þeirra í náttúruvísindum, lestri og stærðfræði.

Lýðfræði nemenda og þrautalausnir með samvinnu

  • Stúlkur standa sig mjög merkjanlega betur en drengir í þrautalausnum með samvinnu í öllum löndum og hagkerfum sem þátt tóku í matinu. Að meðaltali, þegar litið er til allra landa OECD, skoruðu stúlkur 29 stigum hærra en drengir. Stærstu bilin – meira en 40 stig – komu fram í Ástralíu, Finnlandi, Lettlandi, Nýja‑Sjálandi og Svíþjóð; minnstu bilin – minna en 10 stig – komu fram í Kólombíu, Kostaríka og Perú. Þetta stangast á við niðurstöður PISA matsins frá 2012 á þrautalausnum einstaklinga, þar sem drengir sýndu almennt betri frammistöðu en stúlkur.
  • Frammistaða í þrautalausnum með samvinnu sýnir jákvæða samsvörun við félagslegt og efnahagslegt snið nemenda og skóla, þótt samsvörunin sé veikari en samsvörunin milli félagslegs og efnahagslegs sniðs og frammistöðu í PISA grunngreinunum þremur.
  • Ekki er neinn verulegur munur á frammistöðu milli vel settra nemenda og nemenda sem standa höllum fæti, eða milli nemenda af erlendum uppruna og innfæddra nemenda þegar leiðrétt var fyrir frammistöðu í náttúruvísindum, lestri og stærðfræði. En stúlkur skoruðu 25 stigum hærra en drengir þegar tekið var mið af frammistöðu í PISA grunngreinunum.

Afstaða nemenda til samvinnu

  • Nemendur í öllum löndum og hagkerfum eru almennt jákvæðir gagnvart samvinnu. Meira en 85% nemenda að meðaltali í löndum OECD voru sammála staðhæfingunni „ég er góður hlustandi“, „ég nýt þess að sjá þegar bekkjarfélögum mínum gengur vel“, „ég tek mið af því hvað vekur áhuga annarra“, „ég nýt þess að íhuga mismunandi sjónarmið“ og „ég nýt þess að vinna með jafningjum“.
  • Stúlkur í nánast öllum löndum og hagkerfum hafa tilhneigingu til þess að leggja meira upp úr félagstengslum, sem þýðir að stúlkur samþykktu oftar en drengir að þær væru góðir hlustendur, nytu þess að sjá þegar bekkjarfélögum gengi vel, tækju mið af því sem vekti áhuga annarra og nytu þess að íhuga mismunandi sjónarmið.
  • Drengir í flestum löndum og hagkerfum hafa tilhneigingu til þess að leggja meira upp úr teymisvinnu en stúlkur, sem þýðir að þeir voru oftar sammála því en stúlkur að þeir kysu fremur að vinna í teymi en að vinna einir, töldu að teymi tækju betri ákvarðanir en einstaklingar, töldu að teymisvinna bætti árangur þeirra og nutu þess að vinna með jafningjum.
  • Vel settir nemendur í nærri öllum löndum og hagkerfum höfðu tilhneigingu til þess að meta félagstengsl umfram nemendur sem standa höllum fæti, en nemendur sem standa höllum fæti í flestum löndum höfðu tilhneigingu til þess að meta teymisvinnu umfram vel stadda nemendur.
  • Þegar tekið var mið af frammistöðu í PISA grunngreinunum þremur, kyni og félagslegri og efnahagslegri stöðu kom í ljós að því meira sem nemendur mátu félagstengsl, því betur stóðu þeir sig í þrautalausnum með samvinnu. Svipuð tengsl komu fram því meira sem nemendur lögðu upp úr teymisvinnu.

Nemendastarf, skólavenjur og samstarfsvenjur

  • Afstaða til samvinnu er almennt jákvæðari eftir því sem nemendur taka meiri þátt í líkamlegu athæfi eða stunda fleiri leikfimitíma í hverri viku.
  • Nemendur sem stunda tölvuleiki utan skóla skora örlítið lægra í þrautalausnum með samvinnu en nemendur sem stunda ekki tölvuleiki, að meðaltali í löndum OECD, þegar tekið er mið af frammistöðu í PISA grunngreinunum þremur, kyni og félagslegu og efnahagslegu sniði nemenda og skóla. En nemendur sem ástunda netið, spjallrásir og samfélagsmiðla utan skóla skoruðu örlítið hærra en aðrir nemendur.
  • Nemendur sem taka þátt í heimilisstörfum eða annast um aðra í fjölskyldunni meta bæði teymisvinnu og félagstengsl umfram aðra nemendur, og sama á við nemendur sem hitta vini eða tala við vini í síma utan skóla.

Skólar þar sem samvinna tíðkast

  • Að meðaltali í öllum löndum OECD skoruðu nemendur sem neituðu að hafa verið ógnað af öðrum nemendum hærra um 18 stig í þrautalausn með samvinnu en nemendur sem greindu frá því að þeim hefði verið ógnað a.m.k. nokkrum sinnum á ári. Nemendur skora einnig 11 stigum hærra fyrir hverja 10 prósentustiga aukningu í fjölda skólafélaga sem greina frá því að þeim hafi ekki verið ógnað af öðrum nemendum.
  • Nemendur skora hærra í þrautalausn með samvinnu þegar þeir eða skólafélagar þeirra greina frá því að kennarar komi fram við nemendur af sanngirni, jafnvel eftir að reiknuð hefur verið inn frammistaða þeirra í náttúruvísindum, lestri og stærðfræði.

Það sem ráða má af niðurstöðum PISA til stefnumótunar

Menntakerfi gætu hjálpað nemendum að þróa samvinnufærni sína. Leikfimikennsla veitir til dæmis mörg tækifæri til þess að innræta samstarfsvilja og þróa félagslega færni og afstöðu til samvinnu. Niðurstöður sýna einnig að fylgni er milli fjölbreytileika nemenda í skólastofunni og færni í samvinnu.

Skýrslan sýnir einnig að ef hlúð er að jákvæðum félagslegum tengslum í skóla getur það bætt færni nemenda í þrautalausnum með samvinnu og afstöðu þeirra til samvinnu, einkum þegar nemendur eru beinir þátttakendur í tengslunum. Skólar geta skipulagt félagsstarfsemi í því skyni að hlúa að jákvæðum félagslegum tengslum og tengingum við skólann, þjálfa kennara í stjórnun í skólastofunni og taka upp heildarstefnu um að koma í veg fyrir og taka á einelti. Foreldrar geta einnig komið að málum, þar sem samvinna hefst á heimilinu.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2017), PISA 2015 Results (Volume V): Collaborative Problem Solving, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264285521-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error