1887

OECD Multilingual Summaries

Government at a Glance 2013

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/gov_glance-2013-en

Árangur í opinberum rekstri 2013

Útdráttur á íslensku

Vegna fjárhags‑ og efnahagskreppunnar og eftirkasta hennar hafa stjórnvöld í mörgum OECD‑ríkjum ráðist í kerfisbreytingar til að rétta af fjárhagsstöðu hins opinbera. Traust á stjórnvöldum hefur hins vegar dvínað umtalsvert, en erfitt hefur reynst að mæta vaxandi væntingum borgara með takmörkuðu opinberu fé. Frá árinu 2007 til 2012 minnkaði traust á stjórnvöldum ríkjanna að meðaltali úr 45% í 40%, sem torveldar þeim að afla stuðnings við nauðsynlegar umbætur.

Nýrrar nálgunar er þörf í opinberum stjórnarháttum eigi stjórnvöld að mæta væntingum borgara með þeim takmörkuðu fjármunum sem eru til ráðstöfunar. Sú nálgun ætti að miða að skilvirkni og hagkvæmni, öflugum stofnunum, skilvirkum tækjum og ferlum og skýrum mælanlegum markmiðum. Árangursvísarnir sem þessi skýrsla, „Árangur í opinberum rekstri 2013“, fjallar um sýna hvar OECD‑ríkin eru stödd á þessari vegferð.

Helstu niðurstöður

  • Þrátt fyrir umtalsverða viðleitni ríkja til að rétta af fjárhagsstöðu hins opinbera standa þau enn frammi fyrir áskorunum á þessu sviði. OECD hefur metið hve mikið undirliggjandi frumjöfnuður þarf að batna til að vergar skuldir hins opinbera lækki niður í 60% af vergri landsframleiðslu ekki síðar en árið 2030. Í aðildarríkjum OECD þarf framleiðslugeta að aukast að meðaltali um u.þ.b. 3% miðað við fjárhagsstöðuna árið 2012. Mörg OECD‑ríki standa hins vegar enn frammi fyrir hækkandi hlutfalli milli skulda hins opinbera og vergrar landsframleiðslu, en opinber útgjöld uxu að meðaltali hraðar en tekjur á árinu 2011. Að hluta til var það vegna kostnaðar af örvunaraðgerðum og tekjurýrðar af völdum kreppunnar, auk vaxandi útgjalda vegna hækkandi lífaldurs.
  • Ríki hafa tekið upp nýja fjárlagahætti og þróað nýjar stjórnarstofnanir. Vegna breytinga á alþjóðlegri skipan fjárhagsstjórnar, sem voru nauðsynlegar vegna þess að fyrri kerfi reyndust ekki nægilega skilvirk til að viðhalda aga í opinberum fjármálum, eru ýmis ríki að betrumbæta núverandi tæki og taka upp nýjar aðferðir. Til að mynda hafa 97% OECD‑ríkjanna þegar sett fjármálareglur, auk þess sem reglum hefur fjölgað á hvert ríki að meðaltali. Frá árinu 2009 til 2013 settu átta ríki á laggirnar óháðar stofnanir um opinber fjármál til að stuðla að aga, veita hagrænar upplýsingar og tryggja að fjármunum sé ráðstafað á sem nytsamlegastan hátt.
  • Hlutfall opinberra starfa hefur tilhneigingu til að vera stöðugt til lengri tíma. Hlutfall opinberra starfa af heildarvinnuafli hélst nokkuð óbreytt frá árinu 2001 til 2011, eða tæplega 16%. Þetta er nokkuð lægra hlutfall en meðaltal opinberra útgjalda, sem nam 45,4% af vergri landsframleiðslu árið 2011, en það sýnir hve veigamiklu hlutverki útvistun verkefna gegnir. Þótt mörg OECD‑ríki hafi lýst yfir frystingu nýráðninga og fækkun starfsmanna sem hluta af aðhaldsaðgerðum sínum er erfitt að viðhalda mikilli fækkun opinberra starfsmanna til langs tíma litið, því kröfur borgaranna halda áfram að vaxa.
  • Frekari aðgerða er þörf til að að eyða kynjamun meðal opinberra starfsmanna. Hið opinbera í mismunandi ríkjum hefur gert ýmsar ráðstafanir til að tryggja jöfn tækifæri kvenkyns og karlkyns starfsmanna sinna, s.s. með markmiðum um ráðningar og stöðuhækkanir og ráðstöfunum til að bæta jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Gögnin sýna hins vegar að konur gegna meira en 50% ritarastarfa (í sumum tilvikum næstum 90%) og eru mun færri í æðri stöðum. Á meðal ráðstafana til að leiðrétta slíkan mismun er t.d. kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð (KHF), sem felur í sér að kynjasjónarmið eru samofin í öll stig fjárlagaferlisins. KHF miðar að því að koma í veg fyrir „kynjablindar“ ákvarðanir um útgjöld og gera áætlanir stjórnvalda skilvirkari með því að greina kynjamismunun sem getur hlotist af fjárveitingum. Minna en helmingur OECD‑ríkja hefur hins vegar innleitt KHF.
  • Opinber innkaup eru markvissari. Mörg OECD‑ríki nota nýjar innkaupaaðferðir til að ná fram stærðarhagkvæmni (94% þeirra nota t.a.m. rammasamninga), eru að endurskipuleggja og samþætta innkaup sín og innleiða upplýsinga‑ og fjarskiptatækni í innkaupaferlið (97% þeirra nota t.d. rafræn innkaup í útboðum). Auk þess beita mörg OECD‑ríki opinberri innkaupastefnu ekki aðeins til að tryggja góða nýtingu á almannafé heldur einnig í þágu annarra stefnumiða, s.s. nýsköpunar, sjálfbærs vaxtar (73% ríkjanna leggja áherslu á umhverfisvæn innkaup), lítilla og meðalstórra fyrirtækja (70% ríkjanna leggja áherslu á að nýta þjónustu þeirra) og jafns aðgangs að efnahagslegum tækifærum.
  • Upplýsingagjöf um eignir og persónulega hagsmuni þeirra sem taka ákvarðanir er enn mjög mikilvægt tæki til að hafa stjórn á hagsmunaárekstrum. Í nær öllum ríkjum er gerð krafa um að þeir sem taka ákvarðanir upplýsi opinberlega um eignir sínar og hvaðan þeir hafa tekjur. Hins vegar er þess sjaldan krafist að upplýst sé um fyrri atvinnu og skuldir.
  • Opin gögn hins opinbera (e. Open Government Data eða OGD) verða æ mikilvægara stjórntæki. Rúmlega helmingur OECD‑ríkja hefur markað sér stefnu á landsvísu um að veita borgurum sínum opinn aðgang að gögnum hins opinbera; 16% hafa sett sér sérstaka stefnu á þessu sviði fyrir einstök fagráðuneyti og 28% hafa gert það bæði á landsvísu og á lægri stigum. Aðeins 4% aðildarríkja hafa ekki sett sér neina stefnu um opin gögn hins opinbera. Lykilmarkmið á þessu sviði eru aukið gagnsæi og opið aðgengi, aukin viðskipti í einkageiranum og uppbygging nýrrar atvinnustarfsemi. Ríkin hafa auk þess glöggan skilning á þeim möguleikum sem opin gögn bjóða upp á til að bæta þjónustu. Hins vegar virðast möguleg áhrif opinna gagna á þátttöku borgara í opinberri umræðu og ákvarðanatöku ekki vera á meðal helstu forgangsatriða.
  • Borgarar hafa meira traust á þeirri opinberu þjónustu sem þeir nota en stjórnvöldum í óhlutbundnum skilningi. Þrátt fyrir dvínandi traust á „stjórnvöldum“ kveðast borgarar ánægðir með þá þjónustu sem þau veita. Til dæmis segjast að meðaltali 72% þeirra hafa traust á lögreglunni á hverjum stað. Næstum því sama hlutfall lýsti yfir ánægju með aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og 66% sögðust ánægð með menntakerfið eða skólana í sinni borg eða á sínu svæði. Ánægja með opinbera þjónustu hélst nokkuð stöðug að meðaltali í alþjóðlegu fjárhags‑ og efnahagskreppunni og strax í kjölfar hennar.
  • Stjórnvöld í OECD‑ríkjum leitast í vaxandi mæli við að veita breiðum hópi borgara mikil almannagæði og góða opinbera þjónustu. Mörg ríki eru að taka upp þjónustustaðla og aðferðir til að mæla álit borgara og fella það inn í ferlið. Í fyrsta skipti hefur ritið „Árangur í opinberum rekstri“ nú að geyma samanburð á fjórum þáttum sem varða gæði þjónustu – kostnaði, viðbragðsfærni, áreiðanleika þjónustunnar og ánægju borgaranna – ekki aðeins á milli landa heldur einnig milli helstu flokka opinberrar þjónustu, þ.e. mennta‑, heilbrigðis‑ og dómsmála auk skattyfirvalda.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2013), Government at a Glance 2013, OECD Publishing.
doi: 10.1787/gov_glance-2013-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error