1887

OECD Multilingual Summaries

Society at a Glance 2016

OECD Social Indicators

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264261488-en

Samfélagið í hnotskurn 2016

Félagsvísar OECD

Útdráttur á íslensku

Fimmtán af hundraði ungmenna í löndum OECD voru hvorki í vinnu né skóla eða verknámi (HVSV – e. neither employed, nor in education or training, NEET) árið 2015 – um 40 milljónir ungmenna. Meira en tveir þriðju þeirra voru ekki í atvinnuleit. Vergar heildartekjur sem þessi hópur hefði getað skilað árið 2014 eru áætlaðar um 360‑605 milljarðar bandaríkjadala, eða 0,9‑1,5% af samanlagðri vergri landsframleiðslu allra landa OECD. Óvissa varðandi atvinnu og tekjur getur komið í veg fyrir að ungmenni nái öðrum hefðbundnum þroskaáföngum, sem dregur úr þeim kjark og von. Það getur einnig haft alvarleg langtímaáhrif á heilsufar og frjósemi, aukið glæpatíðni og á endanum grafið undan félagslegri samheldni. Að hjálpa ungmennum að komast í frekara nám eða vinnu er því forgangsmál í stefnu OECD, eins og fram kemur í markmiði G20 landanna um að draga úr fjölda ungmenna sem búa yfir lítilli færni, tilheyra HVSV‑hópnum eða eru í óformlegri atvinnu um 15% fyrir 2025.

Eitt af hverjum tíu störfum hefur tapast síðan 2007

Nærri eitt af hverjum tíu störfum sem launþegar undir 30 ára aldri gegndu glataðist milli 2007 og 2014. Á Spáni, í Grikklandi og á Írlandi helmingaðist fjöldi vinnandi ungmenna. Ungmenni sem hætt höfðu í skóla snemma á framhaldsskólastigi komu verst út úr þessari þróun. Þótt í sumum löndum hafi tekist að ná atvinnu ungmenna upp í það stig sem það var á fyrir hrun hefur afturbatinn verið of veikburða í mörgum löndum til þess að bæta horfur ungmenna að verulegu marki.

Með minni færni eru ungmenni sérstaklega berskjölduð

Ungt fólk sem hætt hefur námi snemma á framhaldsskólastigi er meira en 30% ungmenna í HVSV‑hópnum og það er þrisvar sinnum líklegra til þess að vera utan náms og án atvinnu en ungmenni með próf á háskólastigi. Lélegur námsframi snýst þó ekki aðeins um formlega vottun um hæfni, því ungt fólk sem býr við slakt læsi og talnalæsi er líklegra til þess að vera utan náms og atvinnu, sem undirstrikar mikilvægi góðrar óhefðbundinnar menntunar og starfsþjálfunar fyrir þá sem hætta námi snemma.

Ungar konur eru oft utan náms og atvinnu vegna umönnunarábyrgðar

Að vera kona eykur líkurnar á því að vera utan atvinnu og náms, einkum til langs tíma. Margar ungar konur annast börn og annað fjölskyldufólk á heimilinu. Af því leiðir að konur eru 1,4 sinnum líklegri til þess að tilheyra HVSV‑hópnum en ungir karlar. Fyrir einstæð foreldri er sérstaklega erfitt að sameina barnaumönnun og vinnu eða framhaldsnám. Aðgengi að barnaumönnun á viðráðanlegu verði ræður því úrslitum varðandi bættar atvinnuhorfur ungra kvenna.

Sumir í HVSV‑hópnum glíma við fleiri vandamál

Ungmenni sem þegar standa höllum fæti af öðrum ástæðum eiga einnig oft í mikilli hættu á að sogast inn í HVSV‑hópinn. Þeir sem fæddir eru erlendis eru 1,5 sinnum líklegri til þess að vera utan atvinnu og náms en innfæddir ef þeir tala ekki tungumál landsins og búa yfir lítilli færni. Ungt fólk af foreldrum sem ekki hafa náð langt í námi eða sem ekki eru í atvinnu er einnig líklegt til þess að vera atvinnu‑ eða iðjulaust. Það bendir til þess að bág staða gangi milli kynslóða. Ungt fólk sem býr við slæma heilsu er einnig áberandi margt í HVSV‑hópnum.

Flest ungmenni lenda aldrei í HVSV‑hópnum, en einn fimmti þeirra festist þar til langs tíma

Í úrvali landa sem greind voru hafði meira en helmingur ungmenna aldrei verið utan atvinnu eða náms í lengri tíma en fjögur ár. Hjá öðrum var stutt viðdvöl í HVSV‑hópnum áfangi í umskiptunum frá námi til atvinnuþátttöku. Hins vegar festist einn fimmti allra ungmenna í HVSV‑hópnum í meira en ár – fyrir þau er flosnun frá vinnu og námi ekki skammvinnt heldur varanlegt ástand. Í löndum sem fóru einna verst út úr hruninu er hlutfall þeirra sem eru utan atvinnu og náms til langs tíma hærra og konur, fólk með litla menntun og heilsuveil ungmenni eiga einnig meiri hættu á því að lenda í HVSV‑hópnum til langs tíma.

Hjá fólki í HVSV‑hópnum er minni hamingja, traust og stjórnmálaáhugi

Að tilheyra HVSV‑hópnum er líklegt til að hafa áhrif á hamingju ungmenna, valda því að þau finni til áhrifaleysis og getur haft áhrif á félagslega samheldni. Ungmenni í HVSV‑hópnum finna til minni ánægju í lífinu og hafa minna traust á öðrum í samanburði við ungmenni sem eru í vinnu eða námi. Þau sýna stjórnmálum einnig minni áhuga og eru líklegri til þess að hafa þá skoðun að það sé hlutverk stjórnvalda að sjá borgurunum farborða.

Öryggisnetum hættir til að vera veikari fyrir ungt fólk

Þeir sem flosna frá námi og ungt fólk með sögu um stopula atvinnu eiga oft ekki rétt á tryggingatengdum tekjuuppbótum. Aðeins um 30% atvinnulausra ungmenna fá greiddar atvinnuleysisbætur en meira en 40% allra atvinnuleitenda yfir þrítugu fá slíkar bætur. Af því leiðir að félagslegt öryggisnet gagnast verr í baráttunni gegn fátækt ungs fólks: 40% ungmenna, sem ella væru með tekjur undir fátæktarmörkum, er lyft úr fátækt með opinberum styrkjum, í samanburði við 50% fullorðinna sem komnir eru yfir þrítugt. Um eitt af hverjum átta ungmennum býr við fátækt og fjöldi fátækra meðal ungmenna er meiri en meðal eldri borgara.

Nauðsynlegt er að berjast gegn uppflosnun frá námi

Hlutfall ungmenna sem hætta námi áður en þau ljúka prófi á framhaldsskólastigi hefur dregist saman í löndum OECD á síðasta áratug. Engu að síður er einn af hverjum sex fullorðnum á aldrinum 25‑34 ára enn án prófs af framhaldsskólastigi, einkum ungir menn. Til þess að tryggja að öll ungmenni ljúki einhverju námi á framhaldsskólastigi þarf alhliða stuðning: fylgjast þarf með ástundun nemenda til þess að koma auga á hættumerki um að þeir séu að gefast upp, taka þarf á félagslegum og heilsufarslegum vandamálum nemenda og bjóða þarf upp á félagsstarf eftir skóla til að virkja nemendur og hvetja þá til dáða.

Gott starfsnám og þjálfun geta greitt fyrir umskiptunum frá skóla til atvinnu

Starfsnám og þjálfun eru dýrmætur valkostur við bóknám. Þannig eru ungmenni búin undir vinnumarkaðinn með það að markmiði að bregðast við þörf atvinnurekenda fyrir hæft starfsfólk. Hin hagnýta þjálfun sem felst í starfsmenntun ætti að tengjast vinnu, helst í formi námssamninga þar sem kynnum er komið á milli ungmenna og atvinnurekenda snemma á ferlinu. Slíkar áætlanir geta verið sérstaklega álitlegar og gagnlegar fyrir ungmenni með námsleiða. Með áætlunum um undirbúning undir starfsnám má búa í haginn fyrir þá sem ekki búa yfir því læsi, talnalæsi eða félagsfærni sem þarf til þess að spjara sig á vinnustað.

Markvissar áætlanir þarf til þess að virkja fólk sem hvorki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun

Opinberar þjónustustofnanir þurfa að ná til HVSV‑hópsins til að fyrirbyggja langvarandi iðjuleysi fólks. Vinnumiðlanir, félagsþjónustustofnanir og frjáls félagasamtök geta gegnt lykilhlutverki í virkjun ungmenna sem hafa einangrast. Þegar búið er að skrá ungmenni er hægt að safna upplýsingum sem gera kleift að veita stuðning sem beinist að þeim sérstaklega og þannig má spara útgjöld með því að tryggja að inngrip beinist í rétta átt. Hjá mörgum sem dregist hafa inn í HVSV‑hópinn þarf aðeins örlitla aðstoð til að finna atvinnu, en áætlanir um aðstoð til þeirra sem glíma við alvarlegar eða fjölbreyttar hindranir geta verið umfangsmiklar og kostnaðarsamar. Álitlegustu áætlanirnar eru þær sem sameina nám og hagnýta þjálfun við ráðgjöf, sálfræðiþjónustu og húsnæði. Sumar slíkar áætlanir hafa reynst hagkvæmar með því að bæta tekjumöguleika fólks og draga úr afbrotahegðun.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2016), Society at a Glance 2016: OECD Social Indicators, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264261488-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error